Sunday, December 2, 2012

Aðventan

Fyrsti dagur í aðventu runninn upp...
bara yndislegur tími framundan, þrátt fyrir jólagjafastress þá er þetta án efa skemmtilegasti tími ársins að mínu mati. Góður matur, bakstur, skreytingar og endalaus gleði.
 
Fyrsta jólaskrautið sem komið er upp í litla húsinu er að sjálfsögðu aðventukransinn í ár.
Hvort sem ég skreyti mikið eða lítið þá er þetta eitthvað sem er svo nauðsynilegt fyrir að sé tilbúið fyrsta í aðventunni.
 
Það tók mig reyndar aðeins um fimm mínutur að dunda við minn krans en finnst alltaf svo gaman að fylgjast með á facebook og fleiri stöðum og sjá hvað fólk er hugmyndaríkt ár hvert.
 
 
Fannst ég vera mjög djörf að kaupa svona mikið lituð kerti, geri ekki mikið af því. Fell yfirleitt fyrir bara fyrir þessum hvítu eða beiselituðu.
 
En ég notaði helst það sem ég fann fyrir, smá perlur, hvít málmnúmer, hreindýrið mitt sem er nú búið að fá að standa allt árið um kring frá því í fyrra og smá dönsku með GOD JUL :)


held ég setji metnaðinn hærra á næsta ári og geri fléttaðan krans eða eitthvað álíka líkt og mamma gerði í "gamla daga" :)
 

 
vona svo sannarlega að þið séuð að njóta fyrstu daga aðventunnar og setjið stress og leiðindi til hliðar til að njóta tímans :)
 
svo er það bara að leggja hugann í bleyti hvað baka skal á næstu dögum.
 
Njótið!
 
-Guðrún Ýr-


Monday, November 26, 2012

Kókos- karrí fiskréttur

Datt loksins í stuðið í gær og eldaði dýrindis fiskirétt.
Er að reyna að venja mig á að borða meiri fisk, einhverja hluta vegna sneiði ég alltaf fram hjá honum en vonandi ekki lengur þar sem ég er að fatta að það er hægt að elda svo marga góða rétti úr fisk.
 
Rétturinn sem ég eldaði í gær var Ýsa í kókos og karrísósu og ætla ég að deila uppskriftinni af honum hérna með ykkur.
 
Kókos Karrí Fiskréttur
 
1 msk ólífuolía
1 msk rifinn engifer
4-5 hvítlauksrif
4 stk vorlaukur
1 tsk karrí
2 tsk milt karrímauk (gult)
1/2 tsk cumin
4 msk soja/tamarisósa
1 msk púðursykur
2 msk fiskisósa
1 dós kókosmjólk
ca. 800 gr. ýsa eða annar hvítur fiskur
 
Engifer og hvítlaukur steiktur upp úr olíunni í ca 1 mínutu. Þá er vorlauknum bætt út í ásamt karrí, karrímauki og cumin, látið malla í mínutu í viðbót.
Þá er bara að bæta út í sojasósunni, púðursykrinum, fiskisósunni og kókosmjólkinni út í og leyft að malla í pottinum í 5-10 mín.
 
Fiskurinn er skorinn í bita og lagður í eldfast form og kryddaður með salt og pipar. Sósunni er síðan helt yfir fiskinn og hann settur í ofninn í 15-20 á 200°c.
Gott að strá ferskum kóríander yfir áður en fiskurinn er borinn fram.
 
Ég gerði ferskt salat og hrísgrjón með mínum fisk og fannst þetta æðisleg blanda.
 
 
Þarf víst að hætta að vera feimin að mynda matinn heima hjá mér en það kemur allt með tímanum. ;)
 
Finnst fólk oft forðast að gera mat sem inniheldur ýmis krydd og sósur sem það á ekki til en þá hugsa ég yfirleitt að nota bara eitthvað sambærilegt það gerir réttinn bara oft betri og persónulegri :)
 
-Guðrún Ýr-

Sunday, November 25, 2012

Heklóð

Eitthvað er eldhúsið búið að vera vanrækt hjá mér seinustu viku og lítil sem enginn framleiðsla á gúmmulaði eða mat þar. Það vonandi bætist núna þegar dregur að jólunum og maður kemst í jólabakstursgírinn.
 
Svo er þær hugmyndir sem maður er maður í kollinum fyrir allskyns hlutum flestar á leiðinni í jólapakkana og því ekki hægt að opinbera þá hérna, svo það væntalega gerist eftir jólin :)
 
En langaði að benda á tvær slóðir af þessum krúttulegu smekkum og annars vegar krögum sem er heklað og mér persónulega finnst svo gaman að gera eitthvað svona lítið og sætt með og bæta við í pakka eða jafnvel tækifærisgjafir.
 
 
Blái smekkurinn og kraginn fengu að fara í sitthvora skírnargjöfina í gær.
Ásamt yndislegum samfellum frá Ígló.
 
 
Hérna læt ég slóðina fylgja með:
Kragi (enska) Hér
Smekkur Hér
 
endilega ef þið eigið uppskriftir eða vitið um á netinu af einhverjum litlum fallegum hlutum megið þið endilega deila því með mér.
 
Eigið yndislegan Sunnudag
 
-Guðrún Ýr- 
 
 


Tuesday, November 20, 2012

Dýrindis bollakökur og afmælishelgi

ótrúlegt hvað maður getur stundum farið á haus og ekki haft tíma í eitt né neitt...
en seinasta Laugardag átti ég afmæli og ákvað að halda smá kaffi fyrir mína nánustu fjölskyldu og svo auðvitað vinkonurnar. Ákveðið um fimmleytið á föstudeginum og þessu bara rumpað saman.
 
Litla húsið okkar var á haus í bakstri og ég ákvað að prófa nýja bollaköku uppskrift sem sló sko heldur betur í gegn- klárlega sú allra besta sem ég hef gert!
 
Þar sem ég var að bjóða fólki annað en heim til mín gleymdi ég að sjálfsögðu myndavélinni minni svo ég náði einni skítsæmilegri mynd af einni of kökunum á símann minn.
 
 
Þetta var epla og karmellu bollakaka sem ég rakst á inn á gottimatinn.is- þar leynast margar margar góðar uppskriftir en ég ætla nú ekkert að eigna mér uppskriftina en ég ætla nú bara að deila henni hérna.
 
Kökur innihald
475 g hveiti
3 tsk. lyftiduft
½ tsk maldon salt
225 g smjör við stofuhita
400 g sykur
4 stk egg við stofuhita
80 ml heitt vatn
4 stk meðalstór epli rifin niður
 
Vanillu rjómaostakrem innihald
60 g smjör við stofuhita
500 g flórsykur
1 tsk. vanilludropar (1-2 tsk)
180 g rjómaostur við stofuhita

Karamella innihald
200 g sykur
6 msk. smjör
1 dl. rjómi við stofuhita
 
Aðferð:
Kökur aðferð:
1. Hitið ofninn í 180 gráður og raðaðu formum á bakka.
2. Blandaðu saman hveiti, lyftidufti, kanil og salti í skál.
3. Settu smjörið í skál og hrærðu þar til smjörið verður mjúkt og fínt, bættu því næst sykrinum saman við og hrærðu vel saman í u.þ.b. 3 mínútur.
4. Bættu einu eggi saman við í einu og hrærðu vel á milli.
5. Bættu svo við smá af hveitiblöndunni og smá af heita vatninu saman við og hrærið á litlum hraða og bætið svo restinni saman við. Það er mikilvægt að blanda hveitinu og vatninu smá og smá saman við svo að það sé ekki of mikið álag á deiginu, þá getur það orðið seigt.
6. Blandaðu rifnu eplunum saman við varlega með sleif.
7. Settu deigið í formin og fylltu þau u.þ.b. 2/3.
8. Bakaðu kökurnar í u.þ.b. 18-22 mínútur.
9. Kældu kökurnar í u.þ.b. 20 mínútur, eftir að þú tekur þær úr ofninum.
10. Skerðu innan úr miðjunni á hverri köku til þess að fylla hana af karamellu.
 
Vanillu rjómaostakrem aðferð:
Settu allt saman í skál og hrærðu þar til blandan verður mjúk og létt. Gott er að hræra á miklum hraða síðustu 2 mínúturnar.
 
Karamella aðferð:
1. Setjið sykurinn í pott undir meðalháan hita og hrærið vel í þangað til hann er vel bráðnaður og orðin örlítið dökkur.
2. Bætið smjörinu saman við og hrærið vel.
3. Takið af hellunni og bætið rjómanum saman við og hrærið þangað til blandan er orðin mjúk og fín. Kælið inn í ísskáp í u.þ.b. 15 mínútur.
4. Sprautið svo karamellunni ofan í hverja bollaköku fyrir sig, setjið kremið á og skreytið með restinni af karamellunni.
 
Ég mæli klárlega með þessum.
 
En til að bæta við þá átti ég alveg dýrindis dag og komst að því ég er klárlega að eldast þar sem afmælisgjafirnar innihéldu m.a. straujárn, hnífasett, kökudiska, jólaskraut og fl. en alveg eindæmum þakklát fyrir þessar fallegu gjafir.
 

 
svona tvær í viðbót sem voru teknar í algjöru skyndi :)
 
takk æðislega fyrir mig og vonandi áttuði jafngóða helgi og ég.
 
-Guðrún Ýr-
 
 
 
 

Tuesday, November 13, 2012

Jólakortagleði

Við vinkonurnar ákváðum að við ætlum að reyna að koma saman og föndra jólakort saman í ár. Held það verði alveg rosalega gaman en verð að viðurkenna að ég hef ekki gert mín eigin jólakort frá því í grunnskóla og þar var enginn snillingur á ferð.
 
En þá er bara um að gera að fara á netið og leita að fallegum hugmyndum af jólakortum og fara svo heim og gera sitt allra besta að ná fram jafn góðum árangri :)
 

 




 



Það er ekki hægt annað en að elska Pinterst.com (Ég- Hér) þegar að  kemur að svona leitarmálum.
Eftir þetta föndurkvöld mikla mun ég að sjálfsögðu setja eitthvað af útkomunni hingað inn, þar að segja ef hún á það skilið.
 
Hef verið í miklum hugleiðingum um jólaföndur, bakstur o.fl. er að detta í smá spenning en það hlýtur að meiga þar sem farið er að spila jólalög á LéttBylgjunni.
 
-Guðrún Ýr-





Saturday, November 10, 2012

Heimilishrifning

Það er ekki erfitt fyrir hugann að byrja að reika á hinum ýmsu bloggum og sjá fyrir sér framtíðarheimilið fullt af fallegum hlutum og vel hannað.
 
Þennan Laugardagsmorguninn hef ég látið hugann reika út fyrir litlu íbúðina mína og dreymi um íbúðina sem verður vonandi keypt á næstu mánuðum- árum og innrétti hana í huganum.
 
Innblástur dagsins
 

 
Fullkomna herbergið að mínu mati, eitt stykki falleg gína sem ég þrái að eignast, bækur, bækur og tímarit. Aldrei hægt að eiga nóg að þeim- Versta hvað þau taka mikið pláss oft. OOGG gæran ég gæti eitt svo mörgum stundum þarna.
 
 
meiri gæra...
 


 
Opið eldhús eru svo falleg en þrifnaður iigghh...

 
Kamina í eldhús eins kósý og það gerist



 
Blanda af hráu og fíngerðu fer svo vel saman.
 
smá fegurð á laugardegi- eigið góða helgi :)
 
-Guðrún Ýr-
 
 
 

 

Wednesday, November 7, 2012

Kanilsnúðar

Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að kanilsnúðum eða cinnabons sem ég náði í einhverstaðar á netinu fyrir mörgum árum síðan.
Var í sjálfu sér að grafa uppskriftina upp fyrir bakstur á afmæli og ætla að deila þeim hérna þar sem mér finnst þeir alveg rosalega góðir, sérstaklega nýbakaðir.
 
Ég gerði þá frekar litla í þetta skipti en seinast þegar ég gerði þá voru þeir alveg risastórir svo hægt að leika sér svolítið með það en bragðast jafnvel stórir eða smáir :)
 
 
 Kanilsnúðar
 
235 ml volgt vatn
2 egg (við stofuhita)
75 bráðið smjör
620 gr. hveiti
1 tsk salt
100 gr. sykur
10 gr. ger (eða einn gerpoki eins og fæst allstaðar)
 
Öllu er hnoðað saman og látið hefa sig í 40 mínútur.
Degið flatt út og því leyft að jafna sig í 10 mínútur.
 
 
 Fylling
 
200 púðursykur
15 gr. kanill
50 gr. smjör
 
Allt hrært saman í potti og smurt á degið.
Deginu rúllað upp í snúða og lagt á bökunarplötu.
Inn í ofn á 200°c í 10-15 mínútur fer allt eftir stærð snúðanna.
 
Krem
 
85 gr. rjómaostur
50 gr. mjúkt smjör
200 gr. flórsykur
1/2 tsk. salt
1 tsk vanilludropar
 
Smjör og rjómaostur hrærður fyrst saman, þá flórsykri bætt út í og loks vanilludropunum og saltinu.
 
Kremið sett á heita snúðana og leyft að bráðna aðeins yfir.
 
 
Ég ákvað að setja krem á helming snúðana í þetta skipti finnst þeir mjög góðir með og án.
 
 
Verði ykkur að góðu
 
-Guðrún Ýr-
 
 


Friday, November 2, 2012

Allt & Ekkert

Ég ætla að bætast í hóp allra þeirra sem eru búnir að viðra skoðun sína á veðrinu á netinu í dag.
Þetta veður er náttúrulega ekki hægt, það er enginn sjarmi eða gleði yfir því.
Eins og það að finna fyrir smá rigningu og roki út er huggulegt þegar maður hefur tækifæri að vera inn fyrir en, þetta slær öll met. Hræðslan um að gluggarnir eða hurðin fjúki burt er of mikil.
 
ENN eftir mjög svo annasaman dag í vinnunni þar sem Off Venue tónleikar með Myrru Rós bókstaflega fyllti húsið og áttavilltir túristar leituðu skjóls undan veðrinu, þá ákvað ég að ná smá huggulegri stund með kertaljós í lopasokkunum og með rjúkandi kaffibolla.
 
Þangað til að ég læt mig fjúka niðri í bæ til þess að standa í röð með öllum hinum á Airwaves :)
Bara ást og gleði í því.
 

Smá kertaljós til að gleðja og hlýja 

 
 

 
svo hlýtt og notalegt, rétt á milli geðveikinnar.
 
Góða helgi
 
-Guðrún Ýr-


Wednesday, October 31, 2012

Veturinn kominn

Veturinn er svo sannarlega að láta okkur vita að hann er mættur á svæðið. Kuldinn farinn að skera mann inn að beini og flíkurnar hlaðast utan um mann í þessum kulda.
Hann er leiðinlegur en samt svo sjarmerandi og fallegur um senn.
 
Þótt þau hafi ekki verið mörg snjókornin sem fellu í nótt hérna í Reykjavík þá fengu þau mig til þess að hugsa út það sem koma skal og það er alveg viss tilhlökkun í að fá smá snjó til að leika sér í. (7.9.13 að hann komi)
 
Ég er allaveganna búin að vera á fullu að skoða fallegar vetrarmyndir í dag og vonast eftir fallegum vetrardögum í nánustu framtíð.
 
Læt nokkrar fallegar fylgja með...
 
 
 
 
 
 
 
 
svo random allar en gefa mér allar smá fiðring í magann um komandi vetur.
 
-Guðrún Ýr-
 
 
 
 
 

Tuesday, October 30, 2012

Spínat & skinkuhorn

Í ljósi þess að ég á ekki að borða ger og geri allt of mikið af því fyrir og einhverja hluta vegna er ger í nánast öllu brauðmeti sem er gott. En því ákvað ég að gera tilraun að skinkuhornum án þess að nota ger í baksturinn. Útkoman var góð og verður baksturinn klárlega endurtekinn.
En hornin eru mjög auðveld í bakstri.
 
 
Einhverja vegna fyllist eldhúsið hjá mér af bleikum ílátum þegar ég byrja í bakstri :)
 
 
 
 
Hér ætla ég að deila með ykkur uppskriftinni.
 
Spínat & skinkuhorn (16 stk)
 
250 gr. hveiti
35 gr. smjör
1 msk lyftiduft
1 tsk hunang
150 ml. mjólk
 
Þurrefnunum blandað saman í skál, bræddu smjöri bætt út í ásamat hunangi og mjólk. Hnoðað létt saman.
Deiginu er skipt í tvennt og flatt út í tvo  hringi, hringunum er skipt í átta parta hvor.
 
Fylling
 
4 skinkusneiðar
4 ostsneiðar
u.þ.b handfylli af spínati
2 msk fetaostur
 
Skinku og ostsneiðarnar eru skornar  í fernt og sett á feitari enda hornsins, smá spínati og fetaosti bætt á og þar á eftir rúllað upp.
 
Ofninn stilltur á 200°c og hornin bökuð í 7-10 mín.
 
 
Svo huggulegt að taka sig til og baka í haustinu.
 
-Guðrún Ýr-
 
 
 
 
 

Sunday, October 28, 2012

Nr. Eitt

Freistingar- já þegar ég hugsaði út að finna nafn á bloggið þá hugsaði ég rosalega út frá mat og komst að þeirri niðurstöðu að freistingar væri gott nafn fyrir bloggið, því meira sem ég pæli út frá því þá hef ég komist að það hentar því vel.
 
Freistingarnar í lífinu eru svo margar ekki bara þegar kemur að mat heldur svo margt margt fleira. Þess vegna fannst mér alveg tilvalið að byrja hérna á færslu um þennan litla sæta sem fékk að koma heim með mér úr Ilvu.
 
Ég stóðst ekki freistinguna- gekk um með hann fram og tilbaka í búðina því þetta var nú seinasta eintakið og ég ætlaði sko ekki að glata því. Hann er mjög líkur lömpunum frá  Heico sem eru búnir að vera tröllríða öllu hérna heima en er sparibaukur- alveg guðdómlegur.

 
Ég átti hreinlega bágt með mig þarna inn.
Hefði húspláss og peningabuddan leyft hefðu fallegir hlutir líkt og þessir fengið að koma með heim líka.
 
Ég gæti eflaust haft listann endalausann.
En hætti í bili, freisting nr. eitt komin og svo margar ókomnar.
 
-Guðrún Ýr-
 
 

Thursday, October 25, 2012

Upphafið

jæja þá er komið að því, að henda mér út í djúpu laug bloggheimsins og sjá hvað ég get.
þetta hefur lengi legið fyrir og ekki er hægt að fresta hlutunum að eilífu...

Hugmyndin var að huga að matarást minni, lífstíl, list og menningu. Smá bland í poka sem mun eflaust með tímanum þróast í einhverja eina átt.

sjáum hvað í mér býr...

-Guðrún Ýr-